Samþykktir

Samþykktir Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga
Samþykktar á aðalfundi 29. apríl 2014
1. gr.
Nafn og tilgangur
Félagið heitir Félag íslenskra tryggingastærðfræðinga. Tilgangur félagsins er að stuðla að framgangi þeirra mála sem varða tryggingastærðfræðinga og starfssvið þeirra hér á landi og m.a.:
að viðhalda og auka faglega þekkingu félagsmanna,
að vinna að samræmingu á vinnubrögðum félaga m.a. með útgáfu leiðbeinandi reglna,
að stuðla að traustum og ábyrgum vinnubrögðum á sviði tryggingastærðfræði,
að vinna að kynningu á starfssviði félaga,
að vera í forsvari fyrir félagsmenn sem heild á opinberum vettvangi,
að gæta hagsmuna félagsmanna sem tengjast störfum þeirra sem tryggingastærðfræðingar,
að vera vettvangur fyrir gagnkvæm kynni félagsmanna,
að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði tryggingastærðfræði.
Heimili og varnarþing félagsins er í Reykjavík.

2. gr.
Aðild að alþjóðlegu samstarfi
Félagið er aðili að alþjóða samtökum tryggingastærðfræðinga, International Actuarial Association (IAA) og samtökum tryggingastærðfræðinga á Evrópska efnahagssvæðinu, Actuarial Association of Europe (AAE). Félagið skuldbindur sig til hlíta þeim kröfum sem þessi samtök gera til aðildarfélaga sinna m.a. um menntun nýrra félaga og siðareglur.
Félagið er aðili að samkomulagi aðildarfélaga Actuarial Association of Europe (AAE) um gagnkvæm réttindi félagsmanna sem hyggjast starfa í öðru landi á Evrópska efnahagssvæðinu.

3. gr.
Félagar

Atkvæðisbærir félagar geta þeir orðið sem lokið hafa viðurkenndu prófi í tryggingastærðfræði frá háskóla eða hliðstæðri stofnun. Auk þess þurfa þeir að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til fullgildra félaga samkvæmt reglum alþjóðasamtaka tryggingastærðfræðinga IAA og samstarfssamningi aðildarfélaga AAE sem greint er frá í 2.gr. Þeir teljast atkvæðisbærir félagar sem voru félagar 1.janúar 2005.
Fullgildir félagar eru atkvæðisbærir félagar sem uppfylla kröfur félagsins um símenntun (CPD) í lok hvers árs. Allir atkvæðisbærir félagar í byrjun árs 2014 teljast fullgildir til lok árs 2014 óháð framangreindu. Stjórn félagsins heldur skrá yfir fullgilda félaga sem þá njóta hinna gagnkvæmu félagsréttinda meðal aðildarríkja AAE
Félagið setur sér reglur um símenntun sem samþykktar eru á félagsfundi með atkvæðum a.m.k. 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna.
Aukafélagar geta orðið einstaklingar sem láta sig tryggingastærðfræðileg málefni varða og hafa lokið prófgráðu í grein skyldri tryggingastærðfræði s.s. stærðfræði, verkfræði og eðlisfræði. Almennt skal miða við meistaragráðu eða sambærilegt í viðkomandi grein. Þeir fá boð á opna fundi félagsins svo og á þá félagsfundi sem stjórn boðar þá á. Aukafélagar hafa ekki atkvæðisrétt á félagsfundum.
Sá sem óskar inngöngu í félagið skal senda umsókn til stjórnar félagsins þar sem fram kemur hvort sótt er um aðild sem atkvæðisbær félagi eða aukafélagi. Umsókninni skulu fylgja gögn um menntun og fyrri störf og meðmæli tveggja félagsmanna. Umsóknin skal tekin fyrir á félagsfundi og skal getið í fundarboði. Innganga er veitt ef hún er samþykkt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða.
Aðalfundur getur kjörið mann heiðursfélaga hafi hann unnið mikilvæg störf í þágu félagsins eða stéttarinnar í heild og þarf til þess samþykki 4/5 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi í skriflegri atkvæðagreiðslu.
Félagi sem ekki greiðir félagsgjald þrátt fyrir ítrekun telst hafa sagt sig úr félaginu. Stjórn félagsins ber úrsögnina undir félagsfund til staðfestingar. Stjórn félagsins getur veitt félaga tímabundna undanþágu frá greiðslu félagsgjalds.

4. gr.
Stjórn

Í stjórn félagsins eru þrír menn, kosnir á aðalfundi til þriggja ára í senn. Stjórnin er skipuð formanni, varaformanni sem jafnframt er gjaldkeri og ritara. Einn stjórnarmanna gengur úr stjórninni á hverjum aðalfundi. Hætti stjórnarmaður störfum fyrir lok kjörtímabilsins, skal á næsta félagsfundi þar á eftir kjósa mann til stjórnarsetu til loka kjörtímabils hlutaðeigandi stjórnarmanns. Geti stjórnarmaður ekki sinnt stjórnarstörfum um lengri tíma getur félagið kosið staðgengil hans til stjórnarsetu þar til tímabilinu lýkur.
Stjórnin tilnefnir hæfa menn til kjörs í stjórn félagsins sem og einstakir félagsmenn með skriflegri tilkynningu til stjórnar. Hverjir eru tilnefndir og af hverjum skal getið í fundarboði og á fundinum skal aðeins kjósa mann, sem á þennan hátt er tilnefndur. Séu atkvæði jöfn ræður hlutkesti.
Stjórnin stýrir málum félagsins milli funda.
Stjórnin heldur gerðarbók um fundi sína og ákvarðanir.

5. gr.
Fundir

Félagið heldur fundi eins oft og stjórnin telur tilefni til, eða sé þess beiðst skriflega með tilgreindri dagskrá af að minnsta kosti tveimur félögum.
Fundir eru boðaðir með skriflegri tilkynningu til hvers félaga og eftir föngum með viku fyrirvara. Fundur samkvæmt beiðni félagsmanna skal halda í síðasta lagi einum mánuði eftir afhendingu beiðninnar.
Allar ákvarðanir á fundum eru teknar með einföldum meirihluta greiddra atkvæða, sé ekki öðru vísi ákveðið í samþykktum þessum. Séu atkvæði jöfn ræður hlutkesti. Rétt til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni hafa einungis þeir atkvæðisbæru félagar, sem eru á fundinum. Í máli, sem ekki hefur verið nefnt í fundarboði viðkomandi fundar, verður ekki tekin ákvörðun á þeim fundi, nema að minnsta kosti 2/3 hlutar atkvæðisbærra fundarmanna samþykki.
Stjórn félagsins getur boðið gestum að sitja einstaka fundi félagsins án atkvæðisréttar.

6. gr.
Aðalfundur

Aðalfund skal halda fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Á honum er tekið fyrir:
Skýrsla um störf félagsins á liðnu starfsári.
Reikningsskil, endurskoðuð og undirrituð af stjórninni.
Kjör eins eða fleiri stjórnarmanna, sbr. 4. grein.
Kjör endurskoðanda til þriggja ára þegar við á.
Ákvörðun árgjalds.
Önnur mál.
Reikningsskilin skulu liggja frammi hjá gjaldkera til sýnis félögum í að minnsta kosti viku fyrir aðalfund.

7. gr.
Siða- og starfsagareglur

Félagið hefur sett sér siða- og starfsagareglur sem félagar skuldbinda sig til að hlíta í starfi sínu. Siða- og starfsagareglurnar er að finna í viðauka og teljast hluti samþykkta félagsins.
Liggi fyrir samþykktar leiðbeiningar af félagsins hálfu um verklag skulu félagar jafnan taka mið af þeim í störfum sínum.
Félaga, sem telst óverðugur þess að vera í félaginu, má víkja úr því, náist samþykki 4/5 hluta greiddra atkvæða með skriflegri atkvæðagreiðslu, þó ekki minna en helming atkvæðisbærra félagsmanna.

8. gr.
Leiðbeinandi reglur

Stjórn félagsins skal heimilt að fela einstökum félögum eða hópi þeirra að vinna að gerð leiðbeinandi reglna um störf tryggingastærðfræðinga hér á landi. Niðurstöður og tillögur að leiðbeinandi reglum skal kynna á félagsfundi. Þær skulu síðan sendar félagsmönnum til að gefa þeim kost á að koma að athugasemdum og tillögum til breytinga innan hæfilegs frests. Að loknum þeim fresti skal taka tillögurnar og fram komnar breytingartillögur fyrir á félagsfundi. Þær tillögur sem hljóta samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða skulu kynntar sem álit félagsins.

9. gr.
Breyting á samþykktum félagsins

Samþykktum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi. Tillögur um breytingar á þeim skal senda hverjum félaga í síðasta lagi hálfum mánuði fyrir aðalfund. Til að breytingar nái fram að ganga á fundinum þarf samþykki að minnsta kosti 2/3 hluta greiddra atkvæða.