Siðareglur

Siða- og starfsagareglur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga.
Samþykktar á aðalfundi 10. maí 2022.

Formáli

Siða- og starfsagareglum Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga (FÍT) er ætlað að bæta starf félagsmanna og efla fagmennsku í þágu þeirra sem þiggja af þeim ráð og í þágu almannahagsmuna.

FÍT er aðili að samtökum evrópskra tryggingastærðfræðinga, Actuarial Association of Europe (AAE). Á aðalfundi AAE 22. september 2017 voru samþykktar siða- og starfsagareglur sem aðildarsamtök eru skuldbundin til að hlíta. Þær reglur gilda frá 1. janúar 2021. Þessar siða- og starfsagareglur innleiða reglur AAE en geyma auk þess ákvæði um siðanefnd, þar sem fjallað er um hvernig fara skuli með ágreiningsmál sem upp kunna að koma er varða fagsiðferðileg efni.

Reglur þessar eru að mestu efnislega samhljóða eldri siða- og starfsagareglum FÍT frá 16. maí 2008, en framsetningu er breytt til samræmis við reglur AAE.

Reglurnar koma í stað eldri reglna frá 16. maí 2008.

Félagar í Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga skuldbinda sig til að fylgja eftirfarandi siða- og starfsagareglum:

1. hluti. Inngangur

1.1. Markmið

1.1.1 Þessar siða- og starfsagareglur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga (FÍT) lýsa nálgun félagsmanna við tryggingastærðfræðileg verkefni til þess að notendur þjónustunnar geti treyst því að hún sé fagleg og vönduð.

1.1.2 Reglurnar lýsa einnig nálgun félagsmanna við önnur verkefni eftir því sem við á, sbr. gr. 1.2 um gildissvið.

1.2 Gildissvið

1.2.1

(a) Grundvallarregla A í kafla 3  um heilindi gildir fyrir alla félagsmenn í starfi þeirra að tryggingafræðilegum verkefnum og auk þess þegar ætla má að framganga þeirra tengist tryggingastærðfræði.

(b) Gildissvið við tryggingastærðfræðileg verkefni. Öllum félagsmönnum er ætlað að fylgja grundvallarreglum B til E í kafla 3 við úrlausn tryggingastærðfræðilegra verkefna, hvort sem þau eru launuð eða ólaunuð.

(c) Gildissvið við önnur verkefni. Við störf að verkefnum sem ekki teljast tryggingstærðfræðileg verkefni skulu félagsmenn meta hvort og þá í hvaða mæli, grundvallarreglur B til E í kafla 3 kunni að eiga við. Taka skal meðal annars tillit til eðlis vinnunnar og réttmætra væntinga notenda, auk annarra staðla og siðareglna sem kunna að gilda um þá vinnu.

(d) Aðstoðarstörf. Nú vinnur félagsmaðurverkefni án þess að bera sjálfur fulla ábyrgð á verkinu. Engu að síður skal hann fylgja þessum reglum (sbr. stafliði a, b og c í þessari grein) eins og unnt er, þótt væntingar um það hljóti meðal annars að stjórnast af stöðu félagsmannsins gagnvart verkefninu og af reynslu hans af slíkum verkum.

(e) Andi reglnanna. Þessar reglur eru ekki tæmandi lýsing á því sem félagsmönnum ber að tileinka sér eða varast í starfi sínu. Félagsmenn skulu virða anda reglnanna en ekki einskorða sig við þröngan bókstaflegan skilning.

1.2.2 Í þessum reglum merkja orðin

(a) “skal“, “verður“, eitthvað sem félagsmanni ber að gera, annars víkur hann frá siða- og starfsagareglunum.

(b) “ætti að” eitthvað sem er eðlilegt að gera nema það leiði til óeðlilegrar eða villandi útkomu eða stöðu. Ef vikið er frá því, þá ætti félagsmaðurinn að gera notendum rökstudda grein fyrir því hvers vegna svo var.

1.2.3 Ekkert í þessum siða- og starfsagareglum leggur á félagsmann að ganga gegn gildandi löggjöf. Samningar ganga ekki framar reglum þessum.

2. hluti.  Skilgreiningar

Í þessum reglum er merking hugtaka sem hér segir:

2.1 Félagsmaður (samheiti:, félagi). Tryggingastærðfræðingar og aðrir félagsmenn í Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga.

2.2 Notandi. Aðili (fólk eða félög, þ.m.t. viðskiptavinur félagsmanns) sem ætlað er að nota niðurstöður úr tryggingastærðfræðilegu verkefni.

2.3 Viðskiptavinur (samheiti: vinnuveitandi, umbjóðandi) er sá sem ræður félagsmann til faglegra starfa, iðulega vinnuveitandi viðkomandi félagsmanns.

2.4 Faglegt mat (samheiti: tryggingastærðfræðilegt mat, mat). Mat félagsmanns, byggt á menntun hans og reynslu.

2.5 Tryggingastærðfræðileg verkefni (samheiti: fagleg störf)

Öll verkefni félagsmanns sem varða lífeyrissjóð, vátryggingafélag, fjármálafyrirtæki eða fjármálagjörninga og öll verkefni félagsmanns af tryggingastærðfræðilegum toga.

Gegni félagsmaður starfi sem ekki byggist sérstaklega á menntun hans og reynslu í tryggingastærðfræði, þótt viðfangsefni starfsins geti varðað lífeyrissjóði, vátryggingafélög, fjármálafyrirtæki eða fjármálagjörninga að staðaldri eða tímabundið, þá fellur það ekki undir tryggingastærðfræðileg verkefni.

3. hluti. Grundvallarreglur

A. Heilindi

Félagi skal starfa af heilindum og gæta réttsýni og faglegrar hæfni í starfi sínu.

B. Hæfni og vandvirkni

Félagi skal vinna faglega að tryggingastærðfræðilegum verkefnum og af vandvirkni.

C. Hlíting

Félagi skal í störfum sínum hlíta löggjöf sem um þau gilda, svo og faglegum kröfum.

D. Óhlutdrægni

Félagi skal varast að láta vilhöll sjónarmið, hagsmunaárekstra eða óeðlileg áhrif frá öðrum trufla faglegt mat sitt.

E. Samskipti

Félagi skal gæta háttvísi í samskiptum og standa skil á öllum umsömdum og eftir atvikum öðrum viðeigandi greinargerðum og niðurstöðum.

4. hluti. Nánar um grundvallarreglurnar

A. Heilindi

A.1 Félagi skal vera meðvitaður um faglega ábyrgð sína gagnvart viðskiptavini sínum, vinna af heilindum og alúð og virða löggjöf og faglegar kröfur.

A.2 Félagi á að gæta heiðurs stéttar og starfsgreinar við störf sín, forðast að gera nokkuð sem skaðað getur álit hennar og starfa með almannahagsmuni í huga. Félagi á að sýna varfærni og vera málefnalegur í umræðum og yfirlýsingum er varða störf annarra félaga.

A.3 Félagsmaður skal skal hvorki láta frá sér né taka þátt í að miðla upplýsingum sem hann veit, eða má vita, að séu rangar eða villandi, innihalda ábyrgðarlausar fullyrðingar né heldur sleppa eða leyna upplýsingum sem þurfa að koma fram. Það sama á við um auglýsingar og kynningar. Komi í ljós að félagsmaður hafi verið tengdur við slíka upplýsingagjöf ætti hann að koma því á framfæri að hann sé henni ósammála.

Félagsmaður getur þó unnið með forsendur og aðferðir sem viðskiptavinur felur honum að nota þótt hann telji þær ekki eiga við, en þá skal hann upplýsa notendur um það.

Einnig getur hann unnið með forsendur og aðferðir sem mælt er fyrir um í löggjöf eða faglegum reglum þótt hann telji þær ekki eiga við.

A.4 Félagi skal hafa samvinnu við aðra sem starfa fyrir vinnuveitanda eða viðskiptavin þegar það skiptir máli vegna þess verks sem hann vinnur að.

A.5 Félagi er bundinn þagnarskyldu varðandi trúnaðarmál sem hann öðlast vitneskju um hjá viðskiptavini sínum.

A.6 Sé leitað til félaga um að taka að sér verkefni sem annar  hefur áður sinnt skal hinn fyrrnefndi meta hvort rétt sé að ráðfæra sig við hinn síðarnefnda til að ganga úr skugga um hvort sé við hæfi að hann taki að sér hinar nýju starfsskyldur.

B. Hæfni og vandvirkni

B.1 Félagi ætti að vinna tryggingastærðfræðileg verkefni af alúð og vandvirkni og virða tímamörk.

B.2 Félagi skal aðeins taka að sér tryggingastærðfræðileg verkefni ef

hann hefur þá þekkingu og reynslu sem til þarf,

eða hann vinnur undir handleiðslu einstaklings sem hefur þekkingu og reynslu til að fást við verkefnið og viðskiptavini sé kunnugt um það,

eða hann vinni undir stjórn einstaklings sem ber faglega ábyrgð á verkinu.

B.3 Áður en niðurstöðum úr verkefni er skilað ætti félagsmaður að fara yfir þær og fullvissa sig um að þær séu réttar að því er hann best veit og álítur réttast.

B.4 Félagi ásamt viðskiptavini sínum ætti að afmarka eðli og umfang verkefnisins áður en byrjað er á tryggingastærðfræðilegu verkefni.

C. Hlíting

C.1 Félagsmenn skulu virða skyldur stéttarinnar við almenning með því að fylgja tæknilegum og faglegum stöðlum. Félagsmenn skulu virða reglur, staðla, leiðbeiningar og önnur gögn sem Félag íslenskra tryggingastærðfræðinga hefur gefið út eða gert að sínum, t.d. með þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Taka skal tillit til gildissviðs slíkra gagna og stöðu þeirra innbyrðis og gagnvart löggjöf.

C.2 Meint brot félagsmanns á reglum þessum má kæra til siðanefndar félagsins, sbr. 5. kafla. Félagar skulu hlíta úrskurðum siðanefndar, en yfirnefndar ef úrskurði er áfrýjað.

D. Óhlutdrægni

D.1 Félagi skal ekki vinna tryggingastærðfræðileg verkefni þar sem hagsmunir hans rekast á hagsmuni þeirra sem verkið varðar nema hann geti unnið óhlutdrægt og geri viðskiptavini sínum fulla grein fyrir stöðunni.

D.2 Félagi skal í tæka tíð upplýsa viðskiptavin sinn skriflega um tekjur sem hann hefur og tengst geta sérhverju starfi fyrir viðskiptavininn.

E. Samskipti

E.1 Félagi skal setja fram niðurstöður úr tryggingastærðfræðilegum verkefnum þannig að hæfi tilefni og aðstæðum verksins og þekkingu notanda, á umsömdum tíma og án ástæðulauss dráttar.

E.2 Þegar verkefninu er lokið ætti að koma skýrt fram, þótt atviksbundin frávik skapi ekki skyldu til skýringar, sbr. 1.2.2.(b).

frá hverjum niðurstöðurnar eru,

félaginn hafi borið ábyrgð á framkvæmd verkefnisins, með fyrirvörum ef við á,

staða félagsmannsins gagnvart verkefninu,

tilgreina ætlaða notendur. Séu niðurstöður birtar opinberlega skal þess getið fyrir hvern verkefnið er unnið,

hvert er viðfangsefnið, hvaða svið verkið nær yfir og hver eru markmið þess,hvar, hvernig og í hvaða mæli megi finna viðbótarupplýsingar og skýringar.

5. hluti. Siðanefnd

5.1 Hlutverk og skipun siðanefndar

Félagar, viðskiptavinir þeirra, vinnuveitendur og aðrir sem hagsmuna eiga að gæta geta skotið til félagsins erindum sem varða túlkun á siða- og starfsagareglum félagsins, um ágreiningsmál sem lúta að reglunum eða kæru á hendur félaga vegna brota á reglunum. Erindum skal beint til stjórnar félagsins, sem vísar þeim til siðanefndar.

Sama getur átt við ef upp kemur ágreiningur eða kæra vegna starfa erlendra tryggingastærðfræðinga á Íslandi eða vegna félaga í FÍT erlendis. Stjórn FÍT eða siðanefnd ákveður þá eftir atvikum farveg fyrir málið, eftir atvikum í samráði við erlent félag tryggingstærðfræðinga sem kann að eiga hlut að máli.

Stjórnin tilnefnir þá þrjá menn í siðanefnd og skulu, eftir því sem við verður komið, minnst tveir þeirra vera félagar. Stjórnin tilnefnir formann nefndarinnar. Alla jafna gegnir stjórn starfi siðanefndar nema vanhæfisástæður hamli.

5.2 Starfshættir siðanefndar

Nefndin skal leita sjónarmiða málsaðila og þeim gefinn kostur á að skýra mál sitt milliliðalaust. Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu um trúnaðarmál sem þeir öðlast vitneskju um í störfum nefndarinnar.

Siðanefnd leitast við að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum innan mánaðar frá því hún er kölluð saman.

Uni aðili ekki úrskurði siðanefndar getur hann áfrýjað honum til stjórnar félagsins. Stjórnin skal þá skipa nýja siðanefnd sbr. 2. mgr. Úrskurður þeirrar nefndar er endanlegur.

5.3 Birting úrskurða

Úrskurðir siðanefndar skulu birtir aðilum og stjórn félagsins. Sé úrskurður mótandi um túlkun á reglum þessum eða hafi fordæmisgildi skal hann birtur félagsmönnum efnislega. Siðanefnd sem og stjórn félagsins geta ákveðið að birta opinberlega efnisatriði úrskurðar. Stjórn félagsins ákveður hvort úrskurður skuli birtur erlendum samtökum tryggingastærðfræðinga og þá hverjum.