Siðareglur

Siða- og starfsagareglur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga.
Samþykktar á aðalfundi 16. maí 2008.

Félagar í Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga skuldbinda sig til að fylgja eftirfarandi siða- og starfsagareglum:

1. gr.
Almennar reglur.
Félagi skal starfa af heilindum og gæta réttsýni og faglegrar hæfni í starfi sínu. Hann skal vera meðvitaður um faglega ábyrgð sína gagnvart vinnuveitanda og skjólstæðingi, gæta heiðurs stéttar og starfsgreinar, forðast að gera nokkuð sem skaðað getur álit hennar og starfa með almannahagsmuni í huga.
Félaga ber að gera strangar kröfur til eigin kunnáttu og hæfni þegar veitt er fagleg ráðgjöf og gæta þess að forsendur og aðferðir sem beitt er eigi við í hverju tilviki. Hann skal aðeins taka að sér þau störf sem hann eða fyrirtæki hans getur búist við að leysa á faglegan hátt. Félagar skulu fylgja reglum stöðlum og leiðbeiningum sem félagið hefur sett eða gefið út.
Félagi skal fylgjast með þróuninni í starfsgreininni og í umhverfi hennar. Verkefni sem innt eru af hendi og stuðlað geta að þróun hennar skulu gerð aðgengileg fyrir félaga t.d. á félagsfundum, með birtingu í fagtímaritum eða á annan hátt.

2. gr.
Samskiptin við vinnuveitanda eða skjólstæðing.

Félagi skal í vinnu við verkefni sem honum eru falin, gera sér grein fyrir því gagnkvæma trausti sem samskiptin við vinnuveitanda byggjast á.
Félagi sem álítur að verkefni sem honum er falin af vinnuveitanda stríði gegn siða- og starfsagareglunum skal upplýsa siðanefnd um það. Siðanefnd skal gera þær ráðstafanir sem hún telur viðeigandi í ljósi reglna þessara.
Félagi skal hafa samvinnu við aðra ráðgjafa sem kunna að starfa fyrir vinnuveitanda eða skjólstæðing þegar það skiptir máli vegna þess verkefnis sem hann vinnur að. Félagi er bundinn þagnarskyldu varðandi atriði sem hann öðlast vitneskju um hjá skjólstæðingi sínum. Félagi má ekki nýta sér slíka vitneskju sér til hagsbóta með óréttmætum hætti.
Félagi skal upplýsa skjólstæðing sinn um allar aðrar tekjur sem hann kann að hafa í tengslum við það verkefni sem hann vinnur fyrir hann.
Þegar verkefninu er lokið skal skýrt koma fram að félaginn hafi borið ábyrgð á framkvæmd þess og að hann veiti vinnuveitanda eða skjólstæðingi allar viðbótarupplýsingar og skýringar á umfangi, aðferðum sem beitt er og gögnum. Séu niðurstöður birtar opinberlega skal þess getið fyrir hvern verkefnið er unnið.
Félagi má ekki inna af hendi fagleg störf sem valda eða geta valdið hagsmunaágreiningi nema hæfi hans til að starfa hlutlaust sé óskert og aðilum sé ljóst í hverju ágreiningurinn er fólginn.

3. gr.
Tengslin milli aðalstarfs og ráðgjafastarfs.
Félagi sem stundar ráðgjafastörf auk aðalstarfs skal gera öllum hlutaðeigandi ljóst hvort hann kemur fram sem ráðgjafi eða sem fulltrúi vinnuveitanda sín.
Félagi má ekki taka að sér ráðgjafastörf fyrir viðskiptavini vinnuveitanda síns án vitundar vinnuveitandans.

4. gr.
Samskipti við aðra félaga.
Félagi skal sýna varfærni og vera málefnalegur í umræðum og yfirlýsingum er varða störf annarra félaga.
Sé leitað til félaga um að taka að sér verkefni sem annar félagi hefur áður sinnt skal hinn fyrrnefndi meta hvort rétt sé að ráðfæra sig við hinn síðarnefnda til að ganga úr skugga um hvort sé við hæfi að hann taki að sér hinar nýju starfskyldur.

5. gr.
Almannatengsl.
Nú vill félagi koma einhverju varðandi starfsgreinina á framfæri opinberlega og skal hann gera það á málefnalegan hátt. Félagi má ekki koma þannig fram opinberlega sem tryggingastærðfræðingur að það skaði aðra félaga eða starfsgreinina eða færi honum óréttmætan ávinning í starfi.
Félagi sem gegnir trúnaðarstöðu í Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga má ekki vísa til þess í opinberri umræðu nema hann komi fram fyrir hönd félagsins.

6. gr.
Siðanefnd.
Erindum til siðanefndar skal beint til stjórnar félagsins. Stjórnin tilnefnir þá þrjá menn í siðanefnd og skulu, eftir því sem við verður komið, minnst tveir þeirra vera félagar. Stjórnin tilnefnir formann nefndarinnar. Siðanefnd leitast við að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum innan mánaðar frá því hún er kölluð saman. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Þeir sem sitja í siðanefnd eru bundnir þagnarskyldu um allar upplýsingar sem þeir fá við meðferð ágreiningsmála
Félagar, viðskiptavinir þeirra, vinnuveitendur og aðrir sem hagsmuna eiga að gæta geta skotið til nefndarinnar ágreiningsefnum er varða fagsiðferðileg efni.
Úrskurðir siðanefndar skulu birtir aðilum og stjórn félagsins. Sé úrskurður mótandi um túlkun á reglum þessum eða hafi fordæmisgildi skal hann birtur félagsmönnum efnislega. Siðanefnd sem og stjórn félagsins geta ákveðið að birta opinberlega efnisatriði úrskurðar. Stjórn félagsins ákeður hvort úrskuðrur skuli birtur erlendum samtökum tryggingastærðfræðinga og þá hverjum.
Uni aðili ekki úrskurði siðanefndar getur hann áfrýjað honum til stjórnar félagsins. Stjórnin skal þá skipa nýja siðanefnd sbr. 1. mgr. Úrskurður þeirrar nefndar er endanlegur.